Audronius Azubalis, utanríkisráðherra Litháens, þakkar Íslendingum stuðninginn við sjálfstæðisbaráttu landsins og býður fram aðstoð sína vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Þá er Íslandi boðið að fylgjast með Litháum þegar þeir fara með forsæti í ESB árið 2013.
„Í dag fyllumst við gleði yfir því að geta þakkað vinaríki okkar Íslandi og um leið boðið fram aðstoð okkar á braut landsins til Evrópusambandsaðilar,“ sagði Azubalis.
Ráðherrann litháíski fundaði með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra á fimmtudag og lagði við það tækifæri til að Íslendingar gætu notið góðs af reynslu Litháens af samruna Evrópu og aðildar að Evrópusambandinu.
Bauð Azubalis jafnframt íslenskum diplómötum að ganga til liðs við Litháa þegar þeir fara með forsæti í Evrópusambandinu árið 2013. Með því geti Íslendingar öðlast reynslu af því að fara með forsætið, ef til aðildar kemur, að því er fram kemur í frétt vefjar The Baltic Course um fund ráðherranna.