Ríflega 40 milljónir króna söfnuðust í átakinu „Á allra vörum“ 2011. Söfnunarféð verður notað til að kaupa nýtt hjartaómskoðunartæki fyrir börn, sem staðsett verður á Barnaspítala Hringsins.
Tækið hefur verið nefnt „Hjörtur“, en sú tillaga kom fram með þessum orðum: „Megi Hjörtur bjarga mörgum litlum hjörtum“ - í beinni útsendingu á Skjá einum og mbl.is í gærkvöldi.
Átakið hófst formlega 12. ágúst með sölu á hinum landsþekktu „Á allra vörum“ glossum frá Dior og lauk í gærkvöldi með söfnunarþætti á Skjá einum. Enn er hægt að leggja átakinu lið með því að hringja í símanúmerin 903 1000, 903 3000 og 903 5000.