Fréttaskýring: „Sumar jarðir virðast heilagri en aðrar“

Valhöll á Þingvöllum brann til kaldra kola 10. júlí 2010. …
Valhöll á Þingvöllum brann til kaldra kola 10. júlí 2010. Fjárfestir hafði hug á að kaupa hótelið fyrir nokkrum árum en var hafnað. mbl.is/Ómar

Kaup Huangs Nubos á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum hafa aftur vakið umræðuna um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi en þar sýnist sitt hverjum um ágæti þeirra. Í því sambandi má einnig minnast kaupa Svisslendingsins Rudolds Lamprechts á tveimur jörðum í Álftafirði árið 2009. Áður hafði hann keypt upp þær landareignir sem liggja að Heiðarvatni í Mýrdal eftir að sveitarfélagið nýtti sér ekki forkaupsrétt.

Magnús Leópoldsson fasteignasali, sem hefur selt erlendum aðilum fasteignir í gegnum tíðina, segist hafa orðið var við mikla umræðu um kaup Huangs.

„Ég finn að menn horfa svolítið öðruvísi á þetta. Margir hafa talað við mig þar sem sumar jarðir virðast heilagri en aðrar og Grímsstaðir á Fjöllum hefur einhvern sess,“ segir Magús Leópoldsson fasteignasali. „Það alla vega risu margir upp þegar átti að selja Valhöll.“

Fyrir um ellefu árum eða í byrjun ágúst 2001 bárust fregnir af því að breskur auðkýfingur vildi kaupa Hótel Valhöll á Þingvöllum. Vildi hann greiða um 460 milljónir fyrir á verðlagi þess tíma. Þar sem félagið er sá um kaupin var skráð í Mónakó, sem ekki er aðili að EES-samkomulaginu, þurfti það undanþágu til kaupanna. Dómsmálaráðuneytið hafnaði kaupunum. „Það er eina skiptið sem ég man til þess að hafi verið neitað um kaup,“ segir Magnús.

Gott verð á íslenskum jörðum

Magnús segir að það sé ekkert launungarmál að erlendir aðilar hafi sýnt kaupum á jörðum á Íslandi áhuga. Hann segir kollega sína erlendis hafa upplifað þetta þannig að það sé gott verð hér á landi. Margar þessara jarða séu mikið veðsettar. Magnús á von á nokkrum breskum aðilum til landsins í því skyni að skoða hugsanlegar fjárfestingar. Þeir ætluðu reyndar að koma fyrr í sumar en héldu að sér höndum þegar fór að gjósa. „Svo eru þeir búnir að fá upplýsingar um að það sé ekki allt svart,“ segir Magnús sem bendir á að hingað til hafi verið allt öðruvísi hugsun á bak við jarðakaup. Það hljóti hins vegar að teljast jákvætt að fjárfestar séu að hugsa um uppbyggingu.

Ráðherra að veita undanþágu

Komið hefur fram að lagaumhverfi geti verið flókið þegar kemur að fjárfestingu erlendra aðila.

Jörðin Grímsstaðir á Fjöllum á vatnsréttindi að Jökulsá á Fjöllum en einnig hefur komið upp að þar mætti mögulega bora niður á jarðvarma. Huang hefur sagt að hann muni stofna fyrirtæki á Íslandi utan um fjárfestingar sínar hér. Þar sem hann er frá Kína er hann utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) en aðilar utan þess samnings hafa þrengri heimildir til fjárfestinga á Íslandi. Huang virðist því ekki ætla að fara inn bakdyramegin eins og Magma með því að stofnsetja fyrirtæki annars staðar innan EES.

Bryndís Helgadóttir, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, sagðist ekki tjá sig um einstök mál. Það væri hins vegar þannig að þegar aðili utan EES-svæðisins keypti fasteign þyrfti leyfi frá innanríkisráðherra, sem hefði samkvæmt lögum leyfi til að veita erlendum aðilum utan EES-svæðisins undanþágu. Þar þyrfti að meta hvert mál sérstaklega.

Mættu ekki kaupa jarðir

Þegar rætt er um viðkvæmni fyrir jarðakaupum útlendinga má minnast orða forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, í Þjóðviljanum laugardaginn 13. apríl 1991, í umræðu um EES-samninginn. Þar var rætt um ágreining innan ríkisstjórnarinnar.

„Alþýðuflokkurinn hefur verið fylgjandi því að útlendingar ættu að hafa sama rétt og Íslendingar til að gerast bændur og kaupa jarðir hér á landi. Alþýðubandalagið hefur algjörlega hafnað þessu innan ríkisstjórnarinnar, og Jóni Baldvini er mætavel kunnugt um það að ég mun aldrei samþykkja samning sem felur í sér að útlendingar geti keypt Laxá í Aðaldal eða Hvamm í Dölum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert