Vilja rannsóknarnefnd vegna Líbíu

Frá flokksráðsfundi VG í gærkvöldi.
Frá flokksráðsfundi VG í gærkvöldi. mbl.is/Eggert

Á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sem lauk í dag, var samþykkt ályktun þar sem ítrekuð er fordæming á loftárásum Atlantshafsbandalagsins á Líbíu. Er því beint til Alþingis að skipuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda þess að Ísland samþykkti þessar aðgerðir.

„Þessar árásir beindust meðal annars að borgaralegum skotmörkum og ollu miklu tjóni og dauða fjölda óbreyttra borgara. Hvort með þeim hafi verið komið í veg fyrir verra ástand er ómögulegt að segja en hins vegar er ljóst að heimsvaldahagsmunir vestrænna ríkja og ekki síst olíuhagsmunir réðu miklu þessar aðgerðir," segir í ályktun VG.

Fundurinn segist lýsa yfir stuðningi við alþýðu Líbíu og fordæma hvers kyns kúgun og arðrán þar sem annars staðar. Jafnframt fagnar fundurinn þingsályktunartillögu þingmanna VG um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu sem lögð var fram á Alþingi 30. maí síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert