Davíð Þorláksson, héraðsdómslögmaður, var rétt í þessu kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Alls greiddu 220 atkvæði og komu 127 atkvæði í hlut Davíðs. Mótframbjóðandi hans Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og laganemi, hlaut hins vegar 77 atkvæði. Auðir og ógildir atkvæðaseðlar voru 16.
Fimmtán seðlar voru ógildir og einn auður. Hlaut Davíð því 62% gildra atkvæða en Björn Jón 38%.
Sambandsþing SUS er að þessu sinni haldið í Hveragerði dagana 26. – 28. ágúst. Ólafur Örn Nielsen, núverandi formaður, gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
Á vef SUS segir um feril Davíðs:
„Davíð er fæddur og uppalinn á Akureyri en er búsettur í Reykjavík. Hann útskrifaðist sem stúdent af náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri og með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hann hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 2009. Hann sat í stjórn SUS 2003-2005 og frá 2009, sem 2. varaformaður 2009-2010 og umsjónarmaður málefnastarfs frá 2010. Davíð hefur áður verið gjaldkeri félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, formaður félags sjálfstæðismanna í Vesturbæ og Miðbæ, í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, ritari Varðbergs og fulltrúi nemenda í skólanefnd Menntaskólans á Akureyri.“