„Ótvíræður árangur“ í skattamálum

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur náð „ótvíræðum árangri“ í skattamálum, að mati stjórnar Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Þetta kemur fram í ályktun um stuðning við ríkisstjórnina á flokkráðsfundi VG um helgina.

Orðrétt segir í ályktun stjórnar VG:

„Þó að mest hafi farið fyrir björgunaraðgerðum eftir efnahagshrun hefur á þessum rúmu tveimur árum náðst ótvíræður árangur í fjölda mála sem eru samræmi við stefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og hefur hann verið margítrekaður á þessum vettvangi, bæði í skattamálum, mannréttinda- og dómsmálum, umhverfismálum, menntamálum og málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Mestu skiptir hins vegar að líta fram á veginn. Flokkráðsfundur hvetur ríkisstjórnina til að ljúka vinnu við grundvallarbreytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu þar sem óumdeild yfirráð íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum verði tryggð og meint eignarréttarlegt samband útgerða á nytjastofnum landsins verið rofið.“

Kvenfrelsismálin gleymist ekki

Þá er vikið að baráttunni fyrir réttindum kynjanna.

„Fundurinn brýnir jafnframt ríkisstjórnina á sviði kvenfrelsismála, nauðsynlegt er að tryggja sem jafnasta aðkomu beggja kynja alls staðar þar sem ráðum er ráðið, m.a. á vettvangi ríkisins. Ljúka þarf innleiðingu á kynjaðri hagstjórn og grípa til allra tiltækra aðgerða til að útrýma kynbundnu ofbeldi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert