Undraverður glerhjúpur

Harpa við Reykjavíkurhöfn.
Harpa við Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Júlíus

Fjallað er um tónlistarhúsið Hörpu í breska helgarblaðinu Observer í dag. Er blaðamaður blaðsins hrifinn af húsinu, einkum þó glerhjúp Ólafs Elíassonar og segir hann undraverðan. Þá segir hann að samspil útlits og hljóðhönnunar hafi tekist vel.

Blaðamaðurinn, Rowan Moore, segir m.a. að Harpa sé í nýjum flokki bygginga, þeirra táknmynda uppgangstíma síðasta áratugar, sem komu seint fram á sjónarsviðið.

Ákveðið hafi verið að byggja húsið árið 2004 á þeim tíma  þegar Ísland sá fjármálalegar ofsjónir og hópi banka, arkitekta og annarra var boðið að keppa um þau forréttindi að reisa þetta hús. Hópurinn sem hreppti hnossið hafi verið undir forustu Landsbankans, sem átti eftir að verða einn helsti þátttakandinn í „Gatsby-augnabliki Íslands," eins og Moore orðar það. 

Hann segir, að þegar Landsbankinn féll hafi sennilega flestir Íslendingar talið, að dýrt og risavaxið tónlistarhús væri ekki forgangsverkefni á sama tíma og almenningur tapaði fé og atvinnu. En stjórnvöld hafi þó ákveðið að ljúka við húsið og tekið við verkefninu og tryggt að byrðarnar á skattborgara vegna þess yrðu ekki of þungar. Nú sé auglýsingatextinn sá að Harpa sé tákn endurnýjaðs krafts Íslendinga. 

Moore segir að húsið sé enn á skjön við umhverfið, líkt og 64 tommu sjónvarpsskjár inni í hjólhýsi, en forsvarsmenn Hörpu segi að húsið sé af réttri stærð. Tíminn muni leiða í ljós hvort rekstur Hörpu verði sjálfbær og enginn haldi því fram, að farið yrði eins að ef hefja ætti verkefni á borð við þetta að nýju.

„En það geta komið þeir tímar, að risastór sjónvarpsskjár er góð fjárfesting til að kæta lundina og það sama má segja um undraverðan glerhjúp Ólafs Elíassonar," segir Moore.  

Greinin um Hörpu í Observer

Myndir af Hörpu í Observer

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert