„Þessi skoðun stjórnar Vinstri grænna lýsir veruleikafirringu flokksmanna,“ segir Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, aðspurður um það mat stjórnar VG að „ótvíræður árangur“ hefði náðst í skattamálum á kjörtímabiinu.
„Þessi skoðun er veruleikafirring. Hér er búið að hækka flesta skatta. Það leiðir til þess að það koðnar allt niður, enda eru allir hvatar teknir út sem stuðlað getað að hagvexti. Þess vegna segi ég að skoðun stjórnar VG lýsi engu öðru en veruleikafirringu.“
Tryggvi Þór bendir einnig á að vísbendingar séu um vaxandi undanskot undan skatti.
„Það er alveg ljóst að þeim mun hærri sem skattar eru því meiri hvatar eru fyrir hendi til að svíkja undan skatti. Að undanförnu hafa birst fréttir sem benda til að undanskot færist í vöxt. Sú þróun er m.a. afleiðing ósanngjarnra skattahækkana,“ segir Tryggvi Þór.
Af hverju eru þær ósanngjarnar?
„Vegna þess að í staðinn fyrir að einbeita sér að því að koma umsvifum í gang í hagkerfinu og stækka með því skattstofna er á ósanngjarnan hátt stöðugt tekið meira af fyrirtækjum og einstaklingum til að reka hít sem ríkisstjórnin hefur ekki náð tökum á."
Tryggvi Þór segir jafnframt að Ísland færist nær og nær því að geta talist alþýðulýðveldi. En af hverju?
„Það er stöðugt meira verið að gera ríkið að alfa og omega allra hluta. Það er stöðugt verið að setja fleiri boð og bönn. Frelsi einstaklinga til orðs og atvinnu hefur verið skert. Þess vegna segi ég að við séum að nálgast alþýðulýðveldið Ísland,“ segir Tryggvi Þór.