Bjóst ekki við að lifa af

Fyrirtaka í handrukkunarmálinu.
Fyrirtaka í handrukkunarmálinu. mbl.is

Karlmaður um tvítugt lýsti því fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun hvernig honum var haldið af tveimur mönnum, hann ítrekað barinn, m.a. með vopnum, og honum hótað í maí sl. Sagðist hann ekki eiga orð til að lýsa líðan sinni á meðan atlögunni stóð og bjóst hann ekki við að komast lífs af.

Í málinu eru tveir menn ákærðir fyrir að hafa þriðjudaginn 11. maí og aðfaranótt 12. maí sl. svipt manninn frelsi sínu, haldið honum nauðugum á heimili annars þeirra sem og í geymsluhúsnæði í eigu tengdaföður hins, misþyrmt honum og svívirt með margvíslegum hætti. Annar mannanna er sagður foringi vélhjólasamtakanna Black Pistons en hinn meðlimur.

Fórnarlambið í málinu lýsti því að annar mannanna, þ.e. meðlimurinn, hefði sótt sig um kvöldið og farið með á heimili foringjans. Þar hefðu barsmíðar hafist þá þegar og fyrirvaralaust. Sagði maðurinn að foringinn hefði haft sig meira í frammi. „Síðan fóru þeir að tala um að ég hefði svikið þá. Ég vildi fá að vita hvernig en þeir sögðu bara að ég hefði svikið þá, svikið þá. Svo lömdu þeir mig í bak og fyrir.“

Maðurinn sagðist hafa verið laminn með þykkri tölvusnúru, sverði sem var í slíðrinu auk þess sem kastað hefði verið í hann hnífi og skærum. Þá hefði honum verið sagt, að ef hann reyndi að flýja myndu þeir skaða fjölskyldu hans.

Áður en foringinn vísaði hinum tveimur af heimili sínu var fórnarlambinu gert að þrífa upp eigið blóð og skipta á rúmi hans. Þegar þeir sneru aftur á heimilið hófust barsmíðar á nýjan leik. Lögregla mætti þá á vettvang vegna hávaðaútkalls en fórnarlambinu var skipað að halda sig inni á baðherbergi og hafa hægt um sig.

Síðar var farið með manninn og hann vistaður í iðnaðarhúsnæði í Reykjavík yfir nótt, eða þar til hann var sóttur um morguninn. Þá var aftur farið að heimili foringjans. Þar var þá fyrir stúlka sem tók að sér að farða manninn, s.s. vegna marbletta í andliti. Um hádegi fór annar mannanna í klippingu í Borgartúni og tók fórnarlambið með sér. Þegar maðurinn bað um að fá að nota klósett notaði hann tækifærið og hljóp burt, beint upp á lögreglustöðina við Hverfisgötu.

Fjölskyldan svipt frelsi

Einnig komu fyrir dóminn foreldrar fórnarlambsins. Lýstu þau því að fjölskyldan hefði í kjölfarið verið svipt frelsi sínu. Þau væru alltaf á varðbergi og hefðu hugsað út í að flytja af landi brott vegna málsins. Lögregla hefur fylgst með heimili þeirra og hefur það veitt þeim einhverja ró.

Verjandi mannsins spurði þá hvort fjölskyldunni hefðu borist einhverjar hótanir vegna málsins en svo var ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert