Ísland gangi í ESB árið 2013

Dalia Grybauskaitė, forseti Litháens, heilsar börnum í heimsókn sinni til …
Dalia Grybauskaitė, forseti Litháens, heilsar börnum í heimsókn sinni til Íslands í síðustu viku. Ernir Eyjólfsson

Dalia Grybauskaitė, forseti Litháens, bindur vonir við að Ísland gangi í Evrópusambandið árið 2013, árið sem Litháar fara með forsæti í Evrópusambandinu. Innganga á þeim tímamótum væri við hæfi í ljósi þess að Ísland viðurkenndi fyrst ríkja sjálfstæði Litháens fyrir 20 árum.

Þetta kemur fram á vefnum The Baltic Course en þar segir að Arnór Hannibalsson og dóttir hans, Þóra Arnórsdóttir sjónvarpsmaður, hafi verið áfjáð í að heyra um reynslu Litháa af samstarfinu við Evrópusambandið síðan landið gekk í ESB á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í síðustu viku. En forseti Litháens var þá í opinberri heimsókn á Íslandi ásamt föruneyti.

Haft er eftir Grybauskaitė að Evrópusambandsaðild hafi falið í sér mikinn ávinning fyrir Litháa.

Athygli vekur að í fyrri frétt The Baltic Course segir í fyrirsögn að rætt hafi verið um aðild Íslands að Evrópusambandinu, líkt og hún væri nánast frágenginn hlutur.

En þar kom fram að Litháar hafi boðið Íslendingum að fylgjast með fulltrúum landsins hjá ESB þegar það fer með forsæti í sambandinu árið 2013.

Kemur ekki fram hvort Litháar hyggist styðja það samstarf með fjárframlögum eða hvort íslenska ríkisstjórnin hyggist kosta það á eigin spýtur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert