Fréttaskýring: Skattafrádrátturinn 1,7 milljarðar króna

Átaksverkefnið ,,Allir vinna“ er borðleggjandi dæmi um hvernig skattalækkanir og ívilnanir geta leyst úr læðingi aukin umsvif og dregið úr svartri atvinnustarfsemi. Tölur sem fengust hjá embætti ríkisskattstjóra sýna svart á hvítu að átakið hefur mælst vel fyrir og virðist skila tilætluðum árangri.

Þessu tímabundna hvatningarátaki, sem var jafnframt ætlað að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi, var hrundið úr vör í fyrrasumar og síðan framlengt til 1. janúar 2012. Er fólki gefinn kostur á bæði fullri endurgreiðslu virðisaukaskatts og á skattafrádrætti vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði og frístundahús þar sem verktakar taka að sér viðhald eða endurbætur.

Frádráttur færður á rúmlega 19 þúsund skattframtölum

Að sögn Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra er færður frádráttur frá tekjuskattsstofni vegna þessa á samtals 19.050 framtölum ársins 2011. Heildarfrádrátturinn nemur alls 1.664.350.000 kr.

Af fyrrnefndum fjölda framteljenda voru 1.280 undir skattleysismörkum eða frádrátturinn gerði að verkum að þeir færðust undir skattleysismörk. Hjá þeim er því ekki um beina skattalækkun að ræða en hafa ber í huga að þessi tekjuskattslækkun hefur líka þau áhrif að barnabætur og vaxtabætur geta hækkað hjá viðkomandi vegna þess að þær eru tekjutengdar.

Þá er búið að endurgreiða virðisaukaskatt upp á samtals 2.073.552.499 kr. vegna endurbóta og viðhalds.

Skúli Eggert segir enga spurningu um að menn notfæri sér þessa heimild í miklum mæli, ýmislegt hafi færst til betri vegar og átakið hreyft við atvinnustiginu.

Skattaívilnunin og endurgreiðsla virðisaukaskattsins ætti að minnka þá freistingu að kaupa svarta vinnu. Eins og fram kom í síðustu viku hefur átaksverkefni á vegum ríkisskattstjóra, ASÍ og SA gegn svartri atvinnustarfsemi í sumar, leitt í ljós að svört atvinnustarfsemi virðist vera að aukast. „Það eru bráðabirgðaniðurstöður úr þessari könnun að ástandið sé heldur verra en menn reiknuðu með,“ segir Skúli Eggert.

Búið er að heimsækja um 1.500 vinnustaði og jafnframt verið kannað starfssamband hátt í 5.000 einstaklinga og vinnuveitenda þeirra.

„Veitingastarfsemin er sérlega slæm. Þar er óvenjuhátt hlutfall starfsmanna á duldum launum. Þetta dregur athygli að ýmiss konar þjónustustarfsemi,“ segir hann en bætir við að ástandið í mannvirkjageiranum virðist að mörgu leyti fara batnandi. „Það helgast örugglega af átakinu Allir vinna.“

Hjá Vinnumálastofnun er nú verið að keyra upplýsingar saman við greiðsluskrár vegna atvinnuleysisbóta. Gissur Pétursson, forstjóri stofnunarinnar, segir dæmi um tilvik þar sem brotið hefur verið samtímis á ýmsum sviðum s.s. skattalögum og lögum um atvinnuleysistryggingar. Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Samiðn, segir að endanlegar niðurstöður ættu að liggja fyrir í lok september en draga megi þá ályktun af því sem nú þegar liggur fyrir að umfang skattsvika hafi ekki verið vanáætlað.

Ívilnun nái til bílaviðgerða?

„Menn geta velt því fyrir sér hvort taka ætti upp samskonar frádrátt vegna viðgerða í bílgreinunum. Það hefur verið nefnt. Það er auðvitað pólitískt mál og ég tek enga afstöðu til þess,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. Tímabundin heimild til lækkunar tekjuskatts og endurgreiðslu alls virðisaukaskatts vegna viðhalds á íbúðarhúsnæði hefur að markmiði að auka umsvifin á byggingamarkaði og að uppræta freistinguna til að kaupa svarta vinnu. Vísbendingar eru um að ástandið sé farið að lagast í mannvirkjageiranum. Bílgreinasambandið hefur hvatt til að gerð verði gangskör að því að uppræta svarta atvinnustarfsemi í bílgreininni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert