Þorskurinn hámar í sig rækju

Rækjustofninn er á niðurleið.
Rækjustofninn er á niðurleið. mbl.is

Úthafsrækjustofninn mælist enn lítill en veiðistofnsvísitala úthafsrækju mældist um 15% lægri en á síðasta ári. Skýringin er m.a. mikil þorskgengd. Þetta er niðurstaða af árlegri stofnmælingu Hafrannsóknastofnunarinnar á úthafsrækju fyrir norðan og austan land.

Mælingin fór fram á r/s Bjarna Sæmundssyni 8.-22. júlí. Aðstæður til mælinga voru góðar en veður var með eindæmum gott á meðan á leiðangri stóð.

Mest magn af rækju fékkst við Grímsey, í Skagafjarðardjúpi og austast í Norðurkantinum. Bráðabirgðaútreikningar sýna að nýliðun rækju er enn slök og langt undir langtímameðaltali. Rækjan var að meðaltali stór og var hún svipuð og síðustu ár. Smæst var rækjan norðaustur af landinu (287 stk/kg) en stærst við Kolbeinsey (151 stk/kg) og á Rauða torginu (146 stk/kg).


Eins og undanfarin ár fékkst mikið af þorski í leiðangrinum. Mest var af þorski austur af landinu. Magn grálúðu jókst töluvert árið 2009 og hefur verið tiltölulega mikið frá þeim tíma samanborið við fyrri ár. Báðar tegundirnar éta rækju og geta haft mikil áhrif á ástand rækjustofnsins.

Niðurstöður leiðangursins benda til að ástand úthafsrækjustofnsins hafi versnað aðeins frá síðasta ári. Ýmsar ástæður geta verið fyrir versnandi ástandi rækjustofnsins, m.a. aukin þorskgengd inn á svæðið sem veldur auknu afráni á rækju, einkum ungrækju. Einnig er hugsanlegt að auknar rækjuveiðar á síðustu tveimur fiskveiðiárum hafi haft þau áhrif að rækjan verði aðgengilegri fyrir þorskinn sem leiði til aukins afráns á rækju. Aðrir þættir, s.s. hlýnun sjávar sem flýtir tíma klaks sem hittir þá síður á hámark þörungablómans, hafa líka mikil áhrif á nýliðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert