Rétt er að framboð á nautakjöti mætti vera meira, en ástandið nú má rekja til þróunar á nautakjötsverði síðastliðin tvö til þrjú ár, segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.
Samtök ferðaþjónustunnar sendu frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem kemur fram að skortur á nautakjöti sé farinn að hafa áhrif á matseðla íslenskra veitingastaða.
Baldur segir að eðli málsins samkvæmt geti kúabændur ekki brugðist við aukinni eftirspurn fyrr en að tveimur árum liðnum og engar vísbendingar hafi verið um aukna eftirspurn síðastliðin ár.
„Frá því í mars 2008 til júní 2010 var verð á nautakjöti frá sláturhúsunum óbreytt og það þýðir að það er verið að senda þau skilaboð að það sé nóg til, það þurfi ekki meira. Því þessi framleiðsla stýrist bara af framboði og eftispurn og við höfum séð verðið hækka og lækka í gegnum tíðina. Þannig að skilaboðin til framleiðenda frá kjötkaupmönnum voru í 27 mánuði að framboðið væri nægjanlegt,“ segir Baldur.
Á sama tíma hafi það gerst að verð á áburði margfaldaðist og tilkostnaður við framleiðsluna jókst gífurlega á meðan afurðaverðið hélst óbreytt. „Þá eru einhverjir bændur sem taka ákvörðun um að framleiða ekki, af því að þeir telja sig ekki hafa þá afkomu af því sem þeir þurfa. Þess vegna er þessi staða að koma upp núna, að það er heldur minna framboð en eftirspurn.“
Baldur segir framleiðsluna engu að síður hafa aukist lítillega ár frá ári síðastliðinn fimm ár. Hann segir sambandið koma upplýsingum um stöðuna á markaði á framfæri við umbjóðendur þess en hver og einn framleiðandi verði að vega það og meta hvort hann auki framleiðslu.
Hann segir ráðherra verða að svara fyrir innflutningshöft og tolla.
Spurður um áhrif vorkuldans á heyheimtur og hvort það skili sér í hærra afurðaverði segir Baldur að sér virðist sem útlitið sé mun betra en á horfðist um tíma. „Þetta leit illa út í vor en hins vegar var júlí góður og ágúst þokkalegur, þannig að mér virðist heyfengur líta ágætlega út.“