Samstaða var um það á flokksráðsfundi VG um helgina að fordæma aðgerðir NATO í Líbíu. Þetta segir Auður Lilja Erlingsdóttir, framkvæmdastýra VG, og bendir á að utanríkisstefna, þ.e. friðarstefna, sé ein af grunnstoðunum í stefnu VG. Flokksmenn álíti það brýnt að Ísland standi utan hernaðarbandalaga.
Hana rekur ekki minni til að nokkur fundarmanna hafi greitt atkvæði gegn ályktuninni.
Auður Lilja tekur fram að friðarstefnan sé grasrótinni mjög ofarlega í huga. Hluti félagsmanna hafi stutt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna en um leið og NATO hafi tekið yfir aðgerðirnar hafi þær farið út fyrir þann ramma sem var samþykktur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Aðspurð um breytingartillögu á ályktuninni um Líbíu er snýr að rannsókn á þeirri ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar að styðja ályktun Sameinuðu þjóðanna, svarar Auður Lilja því til að hún hafi verið lögð fram að kvöldi síðasta föstudags. Hana reki með líku lagi ekki minni til þess að nokkur viðstaddra hafi verið henni mótfallin.
En samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru þau Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Ögmundur Jónsson og Jón Bjarnason viðstödd umræðurnar um að fordæma bæri árásirnar en þau eru sem kunnugt er ráðherrar í ríkisstjórn VG og Samfylkingar.
Samstaða var um það á flokksráðsfundi VG á Hótel Loftleiðum um helgina að Hitaveita Suðurnesja ætti að fara aftur í almenningseigu, enda er það í fullu samræmi við stefnu flokksins og ríkisstjórnarinnar um þjóðareign á auðlindum, að sögn Auðar Lilju.