Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar samþykkti um helgina ályktun þar sem lýst er stuðningi við hugmyndir um að flytja umsjón auðlindamála til umhverfisráðuneytisins. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarmálaráðherra, hefur lýst andstöðu við hugmyndir um að flytja auðlindamál úr sjávarútvegsráðuneytinu.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um að stofna „nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti“ og „nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti“. Þessum áformum hefur ekki verið hrundið í framkvæmd, m.a. vegna andstöðu Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Bændasamtökin, LIÚ og fleiri hafa lýst stuðningi við sjónarmið ráðherrans. Í vefriti VG, Smugunni, segir að Jón hafi sagt að breytingar í þessa veru væru hluti af aðlögun Íslands vegna aðildarumsóknar að ESB.
Í ályktun flokksráðs er hvatt til þess að stigin verði „mikilvæg skref til eflingar stjórnsýslu umhverfis- og auðlindamála.
Mestu skiptir að áform um að færa umsýslu auðlindamála til umhverfisráðuneytisins nái fram að ganga eins og fjallað er um í stefnu flokksins og samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Einnig er mikilvægt að starfsemi Umhverfisstofnunar verði tekin til skoðunar og hún efld með það að markmiði að hún njóti trausts sem eftirlits- og umsýslustofnun á sviði umhverfismála.“