Hagsmunasamtök heimilanna taka undir þá skoðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi lagst gegn afskriftum á skuldum heimilanna.
En eins og komið hefur fram á mbl.is telur ráðherrann að sjóðurinn hafi tekið „kapítalið“ fram yfir hagsmuni almennings í efnahagsáætlun sinni fyrir Ísland.
Stefnan legið fyrir frá upphafi
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður samtakanna, segir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá upphafi hafa lagst gegn leiðréttingum á skuldum heimilanna.
„Það var ljóst um leið og fulltrúar AGS komu hingað til lands og umræða snerist um almenna leiðréttingu lána að þeir lögðust alfarið gegn slíkum almennum leiðréttingum.
Þeir hins vegar komu með yfirlýsingar um að ganga þyrfti hraðar til verks með að færa niður skuldir þeirra sem verst voru settir, en viðhorf þeirra skv. yfirlýsingu í fjölmiðlum var að ekki mætti gefa þau skilaboð til skuldara að skuldir væri hægt að færa niður með almennum hætti sem næði til allra.“
Andrea Jóhanna leggur áherslu á að forsendur lánasamninga hafi ekki staðist.
„Hagsmunasamtök heimilanna hafa hins vegar nálgast málið með þeim hætti frá upphafi að allir urðu fyrir tjóni vegna atburðarásar sem þeir báru ekki ábyrgð á né gátu spornað við eða brugðist við með nokkrum hætti og því sé réttlátt að leiðrétta þær stökkbreytingar sem orðið hafa á lánum heimilanna þess vegna,“ segir Andrea Jóhanna.