Tillagan sem samþykkt var á flokksráðsfundi Vinstri grænna síðustu helgi um að rannsaka bæri aðdraganda þess að íslenska ríkisstjórnin studdi aðgerðir NATO í Líbíu var ekki sett fram til höfuðs Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra. Einar Ólafsson, annar höfundur tillögunnar, segir þetta í pistli á vef Smugunnar, málgagni VG.
Einar lýsir aðdraganda tillögunnar svo:
„Þessi tillaga kom fram sem viðbótartillaga okkar Sólveigar A. Jónsdóttur við tillögu sem ég lagði fram ásamt fleirum um fordæmingu á loftárásum NATÓ á Líbíu. Viðbótartillagan kom fram vegna óánægju margra í flokknum með það að ríkisstjórn, sem VG á aðild að, skyldi ekki andmæla ákvörðun NATÓ um aðgerðirnar.“
Hann ítrekar að henni hafi ekki verið beint gegn ráðherra utanríkismála.
„Ég veit ekki hvort er einhver pirringur í utanríkisráðherra út af tillögunni. En henni er ekki beint gegn neinum, hvorki honum né öðrum. Ég kann illa við þá ofsóknarkennd að rannsókn hljóti alltaf að beinast gegn einhverjum, vera liður í einhverju stríði. Það getur verið að niðurstaðan verði ráðherranum til hnekkis, eða þingmönnum VG, eða engum, það kemur bara í ljós,“ skrifar Einar en pistilinn má lesa í heild sinni hér.