Fólksflótti ef frumvarp verður að lögum

Höfnin í Vestmannaeyjum.
Höfnin í Vestmannaeyjum. mbl.is/GSH

Bæjarráð Vestmannaeyja telur að  verði frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða óbreytt að lögum muni það leiða til mikillar fólksfækkunar í Vestmannaeyjum enda sé gert ráð fyrir skerðingu aflaheimilda í Eyjum um níu þúsund þorskígildistonn á næstu fimmtán árum eða um 15%.

„Verði hugmyndir frumvarpsins lögfestar bresta forsendur 100 til 150 fjölskyldna fyrir búsetu í Vestmannaeyjum. Að því gefnu að viðkomandi fái vinnu annars staðar mun íbúum í Vestmannaeyjum fækka um 450 til 500 miðað við núverandi íbúafjölda, fara úr 4.200 niður í 3.700. Engir viðburðir í sögu byggðar í Vestmannaeyjum hafa haft viðlíka áhrif á samfélagið nema eldgosið 1973 og hið hroðalega grimmdarverk sem kallað hefur verið Tyrkjaránið árið 1627," segir m.a. í  umsögn um frumvarpið sem sent hefur verið til sjávarútvegsnefndar Alþingis og var samþykkt mótatkvæðalaust í bæjarráði Vestmannaeyja. 

Leggur bæjarráðið til að frumvarpið verði dregið til baka en segir jafnframt að verði fallið frá fyrirliggjandi frumvarpi frábiðji Vestmannaeyjabær sér áframhaldandi ofsóknir með nýjum frumvörpum sem kalli á áframhaldandi tjón og kostnað.

Í álitinu kemur fram að bæjarráð telji ólíklegt að útgerðarfyrirtækin endurleigi tapaðar heimildir úr fyrirhuguðum leigupottum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra enda fjárhagslegur ábati vandséður í þeim viðskiptum. Aflaverðmæti Vestmannaeyja muni því að óbreyttu minnka árlega um tæpa þrjá milljarða króna eða um 714 þúsund á hvern íbúa.

Að mati bæjarráðs muni um 100 manns, sem starfa við veiðar og vinnslu, missa vinnuna og með afleiddum störfum megi gera ráð fyrir að um tvö hundruð störf tapist. Forsendur á annað hundrað fjölskyldna fyrir búsetu í Eyjum bresti.

Umsögn Vestmannaeyjabæjar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka