Gæsluvélin til Senegals

Áhöfn TF-SIF kveður fjölskyldur sínar á Reykjavíkurflugvelli í morgun.
Áhöfn TF-SIF kveður fjölskyldur sínar á Reykjavíkurflugvelli í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, lagði nú í morgun af stað til Senegals í Afríku þar sem hún mun sinna landamæragæslu fyrir Frontex, Landamæraeftirlitsstofnun Evrópusambandsins næsta mánuðinn.

Flugvélin var við landamæraeftirlit í Miðjarðarhafinu frá maílokum þar til í byrjun ágúst. Þá stóð til að hún færi til Senegals en Frontex tók þá ákvörðun um að í bili væri verkefnum hennar lokið þar sem Evrópuþingið hafði ekki tekið ákvörðun um viðbótarfjármagn í þetta landamæraeftirlit. 

En nú hefur staða mála breyst á ný og Frontex óskaði eftir því að FT-SIF færi til eftirlits í Senegal  í september. Fimm manna áhöfn er í vélinni, flugstjóri, flugmaður, flugvirki og tveir stýrimenn og að auki er fulltrúi Landhelgisgæslunnar í stjórnstöð Frontex á Spáni þangað sem upplýsingar frá flugvélinni eru sendar. Að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur, upplýsingarfulltrúa Landhelgisgæslunnar, verður skipt um áhöfn eftir hálfan mánuð.

Hrafnhildur sagði að sóst væri eftir TF-SIF  í þessi verkefni enda ekki margar flugvélar af þessari stærð sem væru jafn vel tækjum búnar og flugvélin.

Í samningunum við Frontex væru síðan ákvæði um að kalla mætti vélina heim ef aðstæður á Íslandi krefðust þess. Vélin kom m.a. að góðum notum í eldgosinu í Eyjafjallajökli á síðasta ári.

Hrafnhildur Brynja sagði að þessi verkefni fyrir Frontex kæmu sér vel fjárhagslega fyrir Landhelgisgæsluna. Þá öfluðu starfsmenn Landhelgisgæslunnar sér dýrmætrar reynslu. 

Varðskipið Ægir er nú á Miðjarðarhafi í verkefnum fyrir Frontex.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert