Hagnaður af rekstri Strætó bs. nam 8,4 milljónum króna á fyrri helmingi ársins en var 79 milljónir króna á sama tímabili á síðasta ári.
Fyrirtækið segir, að afkoman sé nokkru betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Eigið fé félagsins hafi aukist um 83 milljónir frá síðustu áramótum en þá var það í fyrsta sinn jákvætt frá árinu 2004.
Þá kemur fram að umsamin lækkun langtímaskulda hafi numið tæpum 29 milljónum króna, vegna umbreytinga á erlendu láni, og skýri það jákvæða afkomu félagsins á fyrri helmingi ársins. Ellegar hefði afkoman eftir fjármagnsliði orðið neikvæð um 20 milljónir króna.
Fyrirtækið segir í tilkynningu, að horfur í rekstri Strætó fyrir seinni helming ársins séu ekki eins jákvæðar. Það stafi af hækkun eldsneytisverðs, meiri verðbólgu en vonir stóðu til og nýlegum kjarasamningum, sem höfðu meiri kostnaðarauka í för með sér en ráð var fyrir gert. Auk þess hafi fjölgun strætisvagnafarþega haft í för með sér aukinn kostnað og muni að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á afkomu Strætó.