Ójöfnuður hefur farið vaxandi á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins og mun að óbreyttu stuðla að félagslegum óróa í samfélaginu. Þetta er mat Lilju Mósesdóttur þingmanns sem bendir á að gjá sé að myndast á milli fátækra og efnafólks á Íslandi. Þá gjá þurfi að brúa.
„Ójöfnuður hefur aukist á Íslandi í kreppunni. Þessi órói mun að óbreyttu leiða til mikils félagslegs óróleika í haust og á næstu misserum. Ég fæ bréf frá fólki sem er mjög reitt út í stjórnvöld og krefst aðgerða til handa skuldsettum heimilum,“ segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður, um áhrif hrunsins á tekjuskiptingu á Íslandi.
„Það hefur myndast gjá á milli skuldsetts og atvinnulausra annars vegar og fólks sem á eignir hins vegar. Þetta er ný staða á Íslandi. Við verðum sem þjóð að taka á þessum ójöfnuði. Annars mun hann leiða til félagslegs óróleika á Íslandi um ókomin ár.
Það kæmi mér ekki á óvart ef við sæjum fjöldamótmæli í haust. Fram kemur í nýjum tölum Credit Info að fjöldi fólks í vanskilum hefur stóraukist á þessu ári. Þær sýna að 26.000 manns eru í alvarlegum vanskilum og hefur þeim fjölgað um 10% frá áramótum. Það kemur á óvart í ljósi þess að atvinnuleysi hefur farið minnkandi," segir Lilja.
Aðstoði ófaglært fólk við að komast út á vinnumarkaðinn
Hún telur stjórnvöld hefðu getað gert meira fyrir atvinnulaust og ófaglært fólk. Til að mynda hefði þurft að bjóða fyrirtækjum sértækar ívilnanir fyrir að taka við þessum einstaklingum í starfsþjálfun. Brýnt sé að grípa til aðgerða sem fyrst, enda hafi þúsundir verið án vinnu samfleytt frá hruni.
Lilja segir að á stjórnmálafræðiráðstefnunni við Háskóla Íslands um síðustu helgi hafi erlendir stjórnmálafræðingar sýnt þjóðfélagsþróuninni á Íslandi í kjölfar hrunsins mikinn áhuga, ekki síst áhrifunum á kjör kynjanna.