Ekki lánað til nema erlendis

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir mbl.is

Íslenskir ríkisborgarar, sem hafa búið erlendis lengur en 12 mánuði, eiga ekki rétt á námslánum samkvæmt nýjum úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN. Þingmennirnir Eygló Harðardóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafa óskað eftir fundi með menntamálanefnd vegna þessa.

„Ég vil fá skýringar á þeirri hugsun sem er þarna á bak við og þeim áhrifum sem þetta hefur á námsmenn erlendis,“ segir Eygló í samtali við mbl.is.

„Félagsmálanefnd Norðurlandaráðs hefur samræmt félagslegar bætur á milli Norðurlandanna, en það hefur ekki það sama verið gert varðandi námslánin. En mér skilst að LÍN hafi tekið þetta upp við menntamálaráðuneytið,“ segir Eygló.

Hún segir að hingað til hafi allir námsmenn með íslenskan ríkisborgararétt átt rétt á láni frá LÍN, en í 3. grein nýju reglugerðarinnar segir: „Námsmenn sem eru íslenskir ríkisborgarar eiga rétt á námslánum samkvæmt 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

1. Umsækjandi um námslán hafi verið við launuð störf hér á landi:

  • a. síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag, hið skemmsta og haft samfellda búsetu hér á landi á sama tíma.
  • b. í skemmri tíma en 12 mánuði og haft búsetu hér á landi í tvö ár samanlagt á samfelldu fimm ára tímabili.“

„Við megum ekki gleyma því að það er kreppa og það hefur verið töluvert um það að fólk sé að flytja utan til að hafa ofan í sig og á. Það má síðan ekki refsa því fólki fyrir að sýna sjálfsbjargarviðleitni,“ segir Eygló og segist hafa heyrt af nokkrum íslenskum námsmönnum erlendis sem hafi fengið synjun um námslán á grundvelli búsetu. Það hafi komið fólki mikið á óvart, enda hafi þessi breyting á úthlutunarreglunum lítið verið kynnt.

„Ef þetta á að vera svona, þá þarf að láta fólk vita af því,“ segir Eygló.

Bloggfærsla Eyglóar Harðardóttur

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert