Huang: Viðskipti ekki pólitík

Huang Nubo
Huang Nubo mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo segir í samtali við kínversku ríkisfréttastofuna, Xinhua, að kaup hans á Grímsstöðum á Fjöllum séu eingöngu viðskiptaleg, ekki pólitísk.

Huang segir í viðtalinu að fyrirtæki hans, Zhongkun Group, ætli að byggja upp ferðaþjónustu á svæðinu og nemur fjárfestingin 200 milljónum Bandaríkjadala, 22,7 milljörðum króna.

Zhongkun er fasteignafélag í einkaeigu og er Huang stjórnarformaður þessu. Félagið var stofnað árið 1995, samkvæmt frétt Xinhua. Meðal annars verður rekið hótel á Grímsstöðum, golfvellir og boðið upp á útivist af ýmsu tagi, segir Huang. Hann sér ýmis tækifæri tengd ferðamennsku á Íslandi en félagið á meðal annars fasteignir í Kína og Bandaríkjunum.

Í frétt Financial Times er ýjað að því að verkefni Huangs tengist áhuga Kína á að ná áhrifum á Íslandi og í Norður-Atlantshafi. Þessu neitar Huang og segir verkefnið eingöngu viðskiptalegs eðlis og ekki tengjast pólitík á nokkurn hátt. Telur Huang að bæði fyrirtækið og íbúar á Íslandi geti hagnast á verkefninu.

Huang staðfestir í viðtalinu að hann hafi unnið fyrir kínverska Kommúnistaflokkinn og ráðuneyti framkvæmda á níunda áratugnum og í byrjun tíunda áratugarins. „Ég var venjulegur skrifstofumaður þá og hætti að vinna fyrir stjórnvöld fyrir löngu. Það er fáránlegt að draga þá ályktun að fyrirtæki mitt njóti opinbers stuðnings,“ segir Huang í viðtalinu.

Fjallað er um tengsl Huangs við Hjörleif Sveinbjörnsson í fréttinni en þeir voru skólabræður á sínum tíma. Huang fer fögrum orðum um Ísland í viðtalinu en hann hefur meðal annars sett eina milljón Bandaríkjadala í að auka tengsl milli íslenskra og kínverskra ljóðskálda en hann tók þátt í ljóðahátíð hér á landi á síðasta ári. Huang kom í fyrsta skipti til Íslands til þess að taka þátt í hátíðinni og landslagið á Íslandi heillaði hann mjög. Eins hafi fólk í viðskiptalífinu á Íslandi sýnt áhuga á að fá kínverska fjárfestingu inn í landið.

Þrátt fyrir að búið sé að skrifa undir söluna á Grímsstöðum þarf að fá samþykki hjá íslenskum og kínverskum stjórnvöldum fyrir viðskiptunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert