Huang Nubo, stjórnarformaður fjárfestingarfélagsins Zhungkun, sem sérhæfir sig í fasteignaviðskiptum og ferðaþjónustu, keypti um 72% jarðarinnar Grímsstaðir á Fjöllum í síðustu viku.
Eigendur landsins eru Guðný María og Jóhannes Haukur Hauksbörn með 50% eignarhlut í gegnum Grímsstaði I, Sigurður Axel Benediktsson, Kristín Axelsdóttir og Elvar Daði Guðjónsson í Grímstungu I og Bragi Benediktsson í Grímstungu II með samtals um 25% eignarhlut og ríkið með um 25% hlut í gegnum Grímsstaði II.
Af því fólki sem hér er talið upp á einn enn eftir að skrifa undir kaupsamning en Huang er þó sagður kominn með rúm 72% af þeim um 75% sem ekki eru í eigu íslenska ríkisins.
Jörðin Grímsstaðir á Fjöllum nær yfir 300 km2 og er ein stærsta jörð landsins. Flatarmál Íslands er um 103.000 km2og hún nær því yfir um 0,3% af flatarmáli þess.
Kaupverð jarðarinnar nemur um einum milljarði króna en þar verður þó að hafa í huga að aðeins eru seld um 75% af þeim 30.000 hekturum sem jörðin telur, eða um 22.500 hektarar, sem eru reyndar í óskiptri sameign. Samkvæmt því er Huang að kaupa hektarann á um 44.400 krónur.
Þegar Morgunblaðið leitaði álits á kaupverðinu varð fátt um svör, þar sem hin selda landareign er í allt öðrum stærðarflokki en þær sem hafa verið að seljast í gegnum tíðina. Er bent á að þó að heildarverðið hafi virst hátt í fyrstu beri að taka tillit til þess við mat á kaupverðinu. Það sé lítið hefðbundið við þessi kaup á jörðinni sem sé nánast á mörkum þess byggilega eins og einn heimildarmaður orðaði það. Þarna sé komin ný vídd í landakaupum.
Algengt verð á þeim jörðum sem hafa gengið kaupum og sölum hingað til án framleiðsluréttar er samkvæmt heimildum Morgunblaðsins um 100-200 milljónir. Þar eru 4-5.000 hektarar sögð algeng stærð og jafnvel mikið um fjalllendi. Samkvæmt því getur verð/hektara hlaupið á bilinu 20-50.000 kr. Hér verður þó að líta til þess að verðið er afstætt. Það getur skipt máli hvort einhver hlunnindi á við veiðiréttindi fylgi landinu. Þá líta bændur frekar til undirlendis og landgæða en þess hve mikilfengleg fjallasýn fylgir landinu.
Um 4-5.000 hektara jörð með bústofni og tilheyrandi getur jafnvel farið á um 300 milljónir.
Þegar rætt var við Ögmund Jónasson í gær hafði ekki borist beiðni um undanþágu vegna kaupa Huang á Grímsstöðum.
Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Félags atvinnurekanda, segir að almennt sé hagkvæmara fyrir fjárfesta að stofna félag innan EES-svæðisins og fjárfesta í gegnum það í stað þess að fjárfesta beint frá landi utan þess. Slíkt hámarkar bæði ábata af fjárfestingu og lágmarkar áhættu. Þó að innanríkisráðherra veiti leyfi fyrir erlendri fjárfestingu kunni slík leyfisveiting að vera háð ákveðinni óvissu og geti jafnvel verið skilyrt með ákveðnum hætti sem geti verið óhentugt fyrir viðkomandi fjárfesti.
Árið 1997 tók hér gildi samningur á milli Kína og Íslands sem er dæmigerður fjárfestingarsamningur en Ísland hefur gert marga slíka að sögn Péturs Dam Leifssonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands. Um gildi hans segir Pétur.
„Megininntakið er í fyrsta lagi að hvetja til fjárfestinga, í öðru lagi að borgarar ríkjanna njóti bestu kjara þegar þeir fjárfesti í löndum hverjir annarra og í þriðja að málsmeðferð sé tryggð.“
Pétur segir að reglan um bestu kjör þýði þó ekki að Kínverjar njóti sömu kjara og þeir sem eru aðilar að samningum á við EES-samninginn.
Hvað aðrar samninga milli Kína og Íslands varðar bendir Páll Rúnar á að Kína hafi fyrir nokkrum misserum dregið sig í hlé í viðræðum um bæði tvísköttunar- og fríverslunarsamninga.
ÁHUGI ERLENDIS
Kaup Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum hafa vakið athygli út fyrir landsteinana en Financial Times fjallaði um málið í blaði sínu í gær og í kjölfarið fylgdu vefur BBC og bandaríska fréttastöðin CNN. Þar er m.a. fjallað um stærð landakaupanna og tengsl Huangs við kínverska kommúnistaflokkinn en hann er sagður hafa starfað í áróðursmálaráðuneytinu. Bent er á að gagnrýnendur áforma Huangs óttist, að Kínverjar muni nota landakaupin til að ná ná ítökum hér á landi og styrkja stöðu sína í þessum heimshluta.
Asískir fjölmiðlar voru einnig byrjaðir að fjalla um málið í gær.