Alþingi ber að leggja aðildarumsókn að Evrópusambandinu til hliðar við þá miklu óvissu sem nú ríkir, bæði um myntsamstarfið, uppbyggingu og innra skipulag ESB. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólk og kjöti, sem eru samtök mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja sem starfa innan Samtaka iðnaðarins, samþykkti á fundi sínum í dag.
Aðildarumsókn sundrar þjóðinni
Formaður samtakanna er Guðni Ágústsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins.
„Samtökin telja að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins horft til framtíðar. Við núverandi aðstæður innan Evrópusambandsins, þar sem grundvallarmál, sem snerta framtíð myntbandalagsins og uppbyggingu og skipulag Evrópusambandsins sjálfs eru til umræðu meðal aðildarþjóða og niðurstöðu ekki að vænta í fyrirsjáanlegri framtíð er rétt af Alþingi að leggja aðildarumsóknina til hliðar.
Það er ljóst að samningaviðræður snúast um afsal á yfirstjórn fiskveiða og fiskimiða og samningsrétti við aðrar þjóðir um skiptingu mikilvægra deilistofna svo og um grundvallarbreytingar í rekstri landbúnaðar á Íslandi, sem reynslan sýnir að geta beinlínis stofnað veigamiklum þáttum hans í voða.
Aðildarviðræðunum fylgir mikill kostnaður og aðildinni enn meiri kostnaður ef af yrði. Ísland þarf nú fyrst og fremst á að halda samstöðu og samtakamætti til að byggja upp og þróa grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar.
Aðildarumsóknin sundrar þjóðinni og gerir henni ókleift að ná saman um aðkallandi verkefni“.