Sífellt fleiri nota reiðhjól sem farartæki til að fara í og úr vinnu, margir þeirra eru á miklum hraða og engar reglur eru um hversu hratt eða hvernig hjólreiðamenn stíga fáka sína. Dæmi eru um alvarleg slys, þegar hjólreiðamenn hjóla á gangandi vegfarendur.
Einar Magnús Magnússon, verkefnisstjóri hjá Umferðarstofu, segir að mjög alvarleg slys hafi orðið þegar hjólreiðamenn hjóla á gangandi vegfarendur en ekki síður þegar þeir hjóla hvor á annan. „Hjólreiðar eru einn öruggasti ferðamáti sem um getur og það er dapurlegt, þegar einstaka menn sem skortir tillitssemi gagnvart öðrum, skyggja á alla kosti þess að hjóla. Samkvæmt lögum eru reiðhjól skilgreind sem ökutæki og þar af leiðandi lýtur akstur þeirra sömu grundvallaratriðum og akstur annarra ökutækja.“
Hann segir að það sé vilji Umferðarstofu að sett verði á fót átak til að tryggja svokallaða óvarða vegfarendur, sem eru gangandi og hjólandi og vonar að tillit verði tekið til þess í fjárveitingum næsta árs. Gera þurfi ráð fyrir hjólreiðafólki í umferðinni og mikið skorti á að ökumenn taki tillit til þessa hóps.
Hjólreiðamenn eru stór hópur
Einar Magnús segir að þegar hjólreiðamenn séu staddir á gangstígum, þá eigi þeir að líta á sig sem gesti og taka fullt tillit til gangandi vegfarenda. „Okkur berast ábendingar frá vegfarendum um að einstaka hjólreiðamenn skapi hættu á gangstígum og noti t.d. ekki hljóðmerki til að gera vart við sig.“
Einar segir að sveitarfélög og ríkið þyrftu að átta sig á því að hjólreiðamenn eru orðnir stór hópur í umferðinni og að gera þurfi ráð fyrir þeim, til dæmis með sérstökum akreinum og hjólreiðastígum eins og tíðkast í Danmörku.
Karl á sjötugsaldri hjólaður niður
Í gær var karlmaður á sjötugsaldri hjólaður niður af reiðhjólamanni, sem hjólaði afar greitt, á göngustíg í Laugardal við Suðurlandsbraut. Maðurinn mun hafa slasast nokkuð og auk þess varð hann fyrir talsverðu eignatjóni, en bæði farsími hans og gleraugu skemmdust í slysinu.
Elísabet Benedikz, yfirlæknir bráðalækninga á slysadeild Landspítalans, segir að ekki hafi verið tekið saman nýlega hvort hjólreiðaslysum hafi fjölgað. „Það er auðvitað alltaf eitthvað um hjólreiðaslys, en ég get ekki fullyrt um að þeim hafi fjölgað. En ég get heldur ekki útilokað það,“ segir Elísabet.