Samkvæmt áætlun Evrópusambandsins er gert ráð fyrir að 28 milljónum evra verði varið í styrki til Íslands fyrir árin 2011–2013 eða 4,6 milljörðum íslenskra króna á genginu í lok ágúst 2011. Ekki er kveðið á um það í lögum ESB að umsóknarríki þurfi að endurgreiða styrki ef þau draga umsókn sína til baka.
Þetta kemur fram á Evrópuvefnum en þar segir einni að í áætlun íslenskra stjórnvalda er gert ráð fyrir að beinn kostnaður vegna umsóknarferlisins geti numið alls 990 milljónum króna á tímabilinu 2009–2012. Þar af er beinn kostnaður utanríkisráðuneytisins vegna ferða, ráðgjafar, starfsmanna og annarra þátta áætlaður 300 milljónir, annarra ráðuneyta 100 milljónir og loks er gert ráð fyrir þýðingarkostnaði upp á 390 milljónir.
„Evrópusambandið kemur ekki beint að kostnaði Íslands við umsóknarferlið sjálft. Sambandið veitir þó ríkjum sem hafa sótt um aðild að sambandinu stuðning samkvæmt svokallaðri IPA-áætlun (Instrument for Pre-Accession Assistance). Markmið stuðningsins er að búa stjórnsýslu umsóknarríkis sem best undir að takast á við umsóknarferlið og sömuleiðis inngönguna ef til þess kemur. Styrkir samkvæmt áætluninni eru að mestu einungis veittir til umbóta sem nýtast þó að ekki komi til aðildar og að sögn utanríkisráðherra á það við um öll verkefni sem Íslendingar hafa sótt um samkvæmt IPA-áætluninni," segir á Evrópuvefnum.