Bandaríski nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Paul Krugman , fjallar í bloggi sínu á vefsíðu New York Times í dag um útskrift Íslands frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Krugman tengir í skýrslu AGF og segir sjóðinn lýsa því yfir að áætlun hans hafi skilað árangri. Krugman tekur undir það og segir að þrátt fyrir að atvinnuleysi sé enn mikið og langt í að bata sé náð, þá sé Ísland ekki lengur statt í kreppu. Landið hafi endurheimt aðgengi sitt að alþjóðlegum fjármálamörkuðum og allt þetta hafi náðst án þess að þjóðfélagið hafi beðið skaða af.
Árangurinn hafi fengist með því að fara óhefðbundnar leiðir, það er með afskriftum skulda, gjaldeyrishöftum og gengisfellingu. Leiðin hafi verið eins andstæð gullfætinum og hægt var og það hafi virkað.