Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa komist að þeirri niðurstöðu eftir skoðun á svari Seðlabanka Íslands (SÍ) við fyrirspurn Umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar HH til hans, að svarið sé ekki fullnægjandi.
Samtökin álíta að SÍ víki sér undan því að vísa til skýrrar lagaheimildar fyrir þeirri aðferð við verðtryggingu sem kveðið er á um í 2. mgr. 4 gr. reglna nr. 492/2001 og er viðurkennt að eigi uppruna sinn í bráðabrigðaheimild sem féll úr gildi fyrir aldarfjórðungi, segir í tilkynningu frá HH.
„Einnig undrast Hagsmunasamtökin þá sýn SÍ að ekki hafi þótt ástæða til að breyta aðferðafræðinni, og eða óska skýringa löggjafans þegar bráðabirgðaákvæði laga sem heimiluðu viðbótarlán fyrir verðbótum féll úr gildi. Þetta atriði ásamt því að SÍ segir ekki þörf á því að orða útgefnar reglur í samræmi við orðalag laga vekur í það minnsta ýmsar spurningar um íslenska stjórnsýslu," segir ennfremur í tilkynningu.
Umboðsmaður Alþingis spyr:
„Ég tek það fram að af þeim gögnum eða upplýsingum sem ég hef kynnt mér verður ekki fyllilega ráðið hvernig framkvæmd þessarar mála hefur verið háttað á liðnum árum og hvort hún hefur tekið einhverjum breytingum, svo sem vegna breytinga á reglum þeim sem Seðlabanki Íslands hefur sett með heimild í lögum um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
Ég óska því sérstaklega eftir því að bankinn afhendi mér gögn sem hann telur að geti verið til skýringa um framkvæmd þessara mála á liðnum árum og hvers vegna efni 2. mgr. 4 gr. reglna nr. 492/2001, og hliðstæð ákvæði eldri reglna, er orðað með þeim hætti sem þar kemur fram.”
SÍ segir m.a. í svari sínu:
„Það hefur aldrei verið skilningur Seðlabankans að aðferðafræðin við framkvæmd verðtryggingar ætti að breytast þó ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 10/1961 félli niður með nýjum seðlabankalögum nr. 36/1986, enda ekkert sem gaf til kynna að slíkt væri vilji löggjafans við framþróun vaxtalaga.”
í ljósi þess að Hagsmunasamtök heimilanna telja að SÍ hafi í raun skautað framhjá þeirri beiðni Umboðsmanns Alþingis að skýra nákvæmlega framkvæmd þessara mála hvað varðar aðferðafræði jafngreiðslulána, þannig að lán sé sífellt að endurnýja sig með nýju láni fyrir verðbótunum um hver mánaðamót, leggja samtökin áfram traust sitt á Umboðsmann Alþingis að afla frekari gagna við rannsókn málsins til að komast að niðurstöðu," segir í tilkynningu HH.