„Við erum komin af hættusvæðinu og í skjól," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í umræðu um efnahagsmál á Alþingi í dag.
Steingrímur sagði að haustið 2008 hefði blasað við hætta á algerri bráðnun hagkerfisins og yfirvofandi greiðslufall og gjaldþrot þjóðarinnar. Nú væri mikið vatn til sjávar runnið og staðan sé gjörbreytt, það eigi allir að viðurkenna.
Hann sagði, að við hefði legið að landið glataði efnahagslegu sjálfstæði sínu í október 2008 og ekkert traust var eftir. Það traust hefði ríkisstjórnin náð að byggja upp og það sæist á því, að ríkissjóður hefði fyrr á árinu sótt sér 1 milljarð dollara með alþjóðlegri skuldabréfaútgáfu á ágætum kjörum.
Sagði Steingrímur, að stjórnmálamenn eigi nú í sameiningu að ræða hvernig Íslendingar geti áfram unnið úr erfiðleikunum og stefnt að betra samfélagi.