Breytt staða frá því í morgun

Róbert Marshall
Róbert Marshall

Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingar og formaður allsherjarnefndar, segist vongóður um að frumvarp um endurskoðun á lögum um stjórnarráðið, verði afgreitt úr nefnd á fundi allsherjarnefnar sem boðað hefur verið til seinna í dag. Hann á von á því að Þráinn Bertelsson og Þór Saari, sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu á nefndarfundi í morgun, muni styðja það nú.

„Við vorum náttúrlega í mikilli tímapressu í morgun að klára þau mál sem ú taf stóðu. Og okkur hefur svona unnist smátími í dag til þess að fara yfir þau mál,“ segir Róbert og á þar við meirihluta nefndarinnar.

Segir hann sér sýnast að ágætissamkomulag sé nú um hvernig frumvarpið eigi að vera og um að taka málið út úr nefndinni. Á hann von á því að það takist á fundinum í dag og að Þór og Þráinn muni greiða því atkvæði.

Spurður að því hvaða atriði hafi verið rædd í dag nefnir hann ákvæði um ritun fundargerða og skráningu gagna á ríkisstjórnarfundum. „Þetta hefur verið að taka miklum breytingum á undanförnum dögum og menn að reyna að klára þetta fyrir upphaf þessara fáu þingdaga sem eru í september. Þannig að það var dálítið mikil pressa á þessu í morgun,“ segir Róbert. Þegar rýmkast hafi um tíma í dag, hafi menn náð saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert