Cheerios hvergi bannað

Cheerios er hluti af innkaupakörfunni hjá mörgum heimilum
Cheerios er hluti af innkaupakörfunni hjá mörgum heimilum mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst er sala á Cheerios-morgunkorni hvergi bönnuð. Sú tegund af Cheerios sem Íslendingar þekkja best er hins vegar yfirleitt ekki í boði í verslunum í Evrópusambandinu.

Þess vegna hefur sú sögusögn gengið manna á milli að sala á Cheerios sé bönnuð innan sambandsins, segir á Evrópuvefnum. Af því hafa síðan sprottið getgátur um að Cheerios yrði ekki lengur til sölu hér á landi ef Ísland gengi í Evrópusambandið. Hið rétta er að íslenskir innflutningsaðilar gætu áfram flutt inn og selt hefðbundið Cheerios í gulum pökkum frá Bandaríkjunum þó svo að Ísland gengi í ESB, en búast mætti við að söluverð hækkaði vegna aukinna tolla, að því er fram kemur á Evrópuvefnum.

„Evrópusambandið er tollabandalag, sem lýsir sér í niðurfellingu tolla milli ESB-ríkja og sameiginlegum ytri tollum gagnvart ríkjum utan sambandsins. Þannig hafa einnig verið leiddar líkur að því að Cheerios sé ekki selt innan ESB vegna þess að framleiðslan sé bandarísk og svo háir tollar lagðir á hana að hún sé ekki samkeppnishæf á evrópskum mörkuðum. Staðreyndin er hins vegar sú að framleiðandi Cheerios í Bandaríkjunum, General Mills, á í samstarfi við evrópska matvælaframleiðandann Nestlé, sem framleiðir nú tvær tegundir af Cheerios og dreifir á evrópskum markaði.

Af einhverjum ástæðum framleiðir Nestlé hins vegar ekki hið hefðbundna Cheerios í gulu pökkunum sem Íslendingar kannast við, heldur annars vegar þá tegund af Cheerios sem nefnist Multi Grain Cheerios í Bandaríkjunum, en ber nafnið Nestlé Cheerios í Evrópu, og hins vegar hunangs- og hnetu-Cheerios (e. Honey Nut Cheerios). Í báðum tegundum er talsvert meira af sykri en í hefðbundnu Cheeriosi. Þetta hefur leitt til þess að Cheerios í gulu pökkunum fæst ekki í almennum verslunum innan ESB, en hægt er að nálgast það í bandarískum sérvöruverslunum, sem er meðal annars að finna í Bretlandi,“ segir á Evrópuvefnum

Cheerios vissulega erfðabreytt en ekki bann við sölu á slíkum vörum innan ESB

Samkvæmt upplýsingum á Evrópuvefnum hefur því hefur meðal annars verið haldið fram að Cheerios sé bannað innan ESB vegna þess að það sé unnið úr erfðabreyttu korni. Cheerios er vissulega erfðabreytt en þess konar matvæli eru hins vegar ekki bönnuð almennt innan sambandsins. Aðildarríki hafa þó heimild til að banna notkun og/eða sölu á erfðabreyttum matvælum, ef þau geta fært sterk rök fyrir því að viðkomandi matvæli feli í sér heilsufarslega eða umhverfislega áhættu.

Vöruframleiðendum innan ESB er hins vegar gert að merkja alla matvöru sem inniheldur erfðabreytt hráefni. Þeirri staðreynd hefur einnig verið fleygt fram sem ástæðu þess að Cheerios í gulu pökkunum er ekki selt innan ESB-ríkja.

Þær tegundir af Cheerios sem eru seldar í ESB-ríkjum, Honey Nut Cheerios og Nestlé Cheerios, innihalda ekki erfðabreytt hráefni og því gæti skýringin legið þar. Þó er í því sambandi óljóst hvers vegna Nestlé framleiðir áðurnefndar Cheerios-tegundir án erfðabreyttra hráefna en gerir ekki slíkt hið sama við hið upprunalega Cheerios í gulu pökkunum. Í því sambandi er einnig rétt að benda á að á Íslandi er engin löggjöf um erfðabreytt matvæli og þess vegna er ekki skylt að merkja þess konar vörur sérstaklega,“ segir á Evrópuvefnum.

Hugsanlega ekki markaður fyrir vöruna

Sérfræðingar Evrópuvefjarins segja ekki ljóst hvers vegna Cheerios í gulu pökkunum er ekki selt í ESB-ríkjum. „Ein hugsanleg skýring er sú að það sé einfaldlega ekki markaður fyrir vöruna innan ESB. Þar gæti skipt máli að morgunverðarvenjur í mörgum ESB-ríkjum eru ólíkar þeim sem eru ríkjandi til að mynda í Bandaríkjunum og á Íslandi. Þá má einnig gera ráð fyrir að evrópskar tegundir af morgunkorni njóti vinsælda á kostnað þeirra bandarísku.

Hvað Ísland varðar yrði ennþá hægt að flytja inn og selja Cheerios þó svo að landið gengi í ESB. Tollar á kornvörur frá Bandaríkjunum eru hins vegar hærri í ESB en á Íslandi og af því leiðir að búast mætti við að söluverð hækkaði sökum hærri tolla ef hefðbundið Cheerios yrði áfram flutt inn til Íslands frá Bandaríkjunum. Hins vegar yrði hægt að flytja inn Nestlé-Cheerios tollfrjálst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka