Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag, að hér hefði enginn þorað að fjárfesta á síðustu árum.
Hann sagði að áhugi íslenskra fjárfesta kunni að hafa verið mikill, eins og komið hefði fram hjá forsætisráðherra. En allir rækju þeir sig á það sama: Það þyrði enginn að fjárfesta í landi þar sem búið væri að hækka skatta 100 sinnum á nokkrum misserum, þar sem ráðherrar töluðu um þjóðnýtingu og létu eins og hægt væri að breyta reglum á einni nóttu og þar sem ekkert væri vitað um hvort næg orka fengist til að halda rekstrinum gangandi.
Þannig hefði ríkisstjórninni tekist að stöðva alla þessa fjárfestingu með því að gera allt öfugt við það sem gera ætti í kreppuástandi. Vinstri grænir hefðu ekki enn fundið atvinnugrein sem þeir sættu sig við og Samfylkingin sætti sig við þetta.