Frumvarpið fellt í nefnd

Þráinn Bertelsson, þingmaður
Þráinn Bertelsson, þingmaður mbl.is/Ómar

Stjórnarfrumvarp um endurskoðun á lögum um stjórnarráðið var fellt í allsherjarnefnd Alþingis sem nú stendur yfir. Greiddi Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, atkvæði með stjórnarandstöðinni. Eins greiddi Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, atkvæði gegn tillögunni en rætt hefur verið um að Hreyfingin myndi styðja frumvarpið.

Í frumvarpinu var meðal annars lagt til að framvegis skuli ákvörðunarvald um það hvaða ráðuneyti skuli starfrækt hvíla hjá stjórnvöldum á hverjum tíma en ekki Alþingi.

Mjög hefur verið deilt um hugmyndir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti og fullyrt að markmið hennar sé að losna við Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, úr ríkisstjórninni. Þingmenn Vinstri grænna óttast að málið allt geti valdið alvarlegum klofningi í flokknum.

Sumir heimildarmenn blaðsins segja að nú hafi verið gerð málamiðlun: VG muni styðja frumvarpið gegn loforði um að ekki verði hróflað við Jóni út kjörtímabilið. Ekki virðist það hafa náð fram að ganga þar sem Þráinn greiddi atkvæði með stjórnarandstöðunni í málinu á nefndarfundinum sem nú stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert