Lög um hlutabætur samþykkt

Alþingi samþykkti í dag breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar sem heimilar greiðslu atvinnuleysisbóta á móti skertu starfshlutfalli. Greiðslur hlutabóta eru þar með tryggðar þeim sem eiga rétt til þeirra samkvæmt lögum til áramóta.

Gildistími bráðabirgðaákvæða laga um atvinnuleysistryggingar, sem heimila greiðslu atvinnuleysisbóta, hafi starfshlutfall fólks verið skert sem nemur að minnsta kosti 30%, rann út 30. júní síðastliðinn. Á vorþingi lagði velferðarráðherra fyrir Alþingi frumvarp þar sem kveðið var á um framlengingu gildistíma bráðabirgðaákvæða um hlutabætur til ársloka 2011. Samstaða var um málið á Alþingi en við þinglok í vor var þriðju atkvæðagreiðslu um frumvarpið ólokið og það varð því ekki að lögum. 

Alþingi tók til starfa í dag að afloknu sumarfríi og var frumvarp velferðarráðherra til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar þá tekið fyrir og lokið þriðju atkvæðagreiðslu um það.

Ákvæði laganna sem kveða á um greiðslu hlutabóta er tímabundið og rennur út 31. desember 2011.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert