Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að ríkisstjórnin hefði tekið að sér á þessu kjörtímabili, að snúa vondri stöðu í betri og það hefði mistekist.
Sagði Bjarni m.a. að ekkert lát væri á atvinnuleysinu þótt þúsundir manna hefðu flutt brott frá Íslandi. Engum vafa væri undirorpið, að leiðin út úr því ástandi, sem Íslendingar glíma við, sé að skapa störf. En ríkisstjórnin neiti að horfast í augu við vandamálin, sem allir aðrir sjá, og tímanum á Alþingi sé löngum stundum varið í mál sem engu skipti.
Bjarni sagði, að Sjálfstæðisflokkurinn vildi skapa störf, lækka skatta og sækja fram og að Íslendingar vildu vinna sig út úr vandanum.
Hann spurði einnig hvaða rétt Íslendingar hefðu til að draga 27 Evrópusambandsríki að viðræðuborðinu til þess eins, að sjá hvað komi út úr þeim viðræðum.
„Af þeirra hálfu liggur málið alveg skýrt fyrir. Þeir hafa komið sér saman um reglurnar. Þeir ætlast til þess að við séum að knýja dyra, viljum komast þar inn eins og regluverkið hefur verið samið af þeim sameiginlega," sagði Bjarni og sagði að menn yrðu að taka þetta með í reikninginn þegar talað væri um Evrópusambandsmálin.