Niðurstöður funda birtar um hæl

Mörður Árnason
Mörður Árnason Ernir Eyjólfsson

Mörður Árnason segist í samtali um frumvarp um endurskoðun laga um stjórnarráðið hafa stutt hugmyndir Þráins Bertelssonar um að fundir ríkisstjórnarinnar yrðu teknir upp en segist ekki hafa verið sammála Þór Saari um hvert ætti að vera fyrirkomulag fundargerða. Þráinn og Þór greiddu atkvæði gegn því að frumvarpið yrði afgreitt úr nefnd í morgun.

„Ég vil strax segja um hljóðritanirnar að ég er kannski ekki alveg sannfærður en mér finnst þetta góð hugmynd. En þá verður þetta að vera þannig að þær séu birtar eftir nokkur ár. Annars gætum við allt eins haft þetta í beinni útsendingu og þá eru fundirnir kannski ekki mikils virði, þá yrðu þeir bara eins og þingfundir,“ segir hann.

„En með fundargerðirnar, þá eru tvær tegundir til af þeim. Annars vegar svona menntaskóla-, málfundafundargerðir þar sem allt er tiltekið nákvæmlega, hvað hver sagði. Fundargerðir þingsins eru til dæmis þannig og þær eru góðar til síns brúks. Hin tegundin er þessi, að almennar samræður eru látnar eiga sig en það eru skráðar niðurstöður og það er bókað ef menn eru á móti eða hafa einhverjar athugasemdir. Þetta eru stuttar fundargerðir en snarpar og sýna manni nokkurn veginn hvað hefur farið fram á fundinum. Og ég er þeirrar skoðunar að fundargerðir ríkisstjórnarinnar eigi að vera svona, sýna hvað fór fram en ekki nákvæmlega hvað hver sagði og ég tel að svona fundargerð eigi að birta nánast jafnóðum.“

Mörður segist hafa hlustað á Þór Saari í nefndinni og segir hann hafa lagt margt gott til málanna en segist jafnframt telja mikilvægt að í ríkisstjórninni þurfi að geta farið fram vinna sem byggist á hreinskiptum skoðanaskiptum og þess vegna eigi fyrirkomulagið ekki að vera með þeim hætti að allt sem menn segi endi í fundargerð.

„En ég styð Þráin og Þór í hljóðritunarmálinu. Það væri fróðlegt að eiga hljóðritun af fundinum þegar Davíð Oddsson fundaði með ríkisstjórn Geirs Haarde, ef maður hugsar sagnfræðilega. En það eru líka deilur um hvað var sagt, svo ég nefni það nú sem dæmi. Það geta komið upp hlutir sem væri gott að geta gengið að eftir tíu ár. Og það er mikilvægt að fólk viti það á fundi að það er ekki hægt að hafa nema eina útgáfu af því hvað sagt var,“ segir Mörður.

Um orð Þórs Saari, sem hrósaði formanni allsherjarnefndar, Róberti Marshall, í samtali við mbl.is í morgun en sagði Mörð og Álfheiði Ingadóttur vera föst í „Alþýðubandalags-miðstýringarhyggjudæmi,“ hafði Mörður þetta að segja:

„Ég er sammála Þór um það að Róbert Marshall hefur staðið sig vel í þessu máli, sem og öðrum, sem formaður allsherjarnefndar. En útaf þessum orðum er rétt að minna á það að Róbert Marshall var lengur í Alþýðubandalaginu en ég, það er söguleg staðreynd.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert