Perlan auglýst til sölu

Perlan í Öskjuhlíð.
Perlan í Öskjuhlíð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Perlan á Öskjuhlíð verður auglýst til sölu í dagblöðum á morgun, laugardag. Fyrirhuguð sala er hluti aðgerðaáætlunar Orkuveitu Reykjavíkur og eigenda fyrirtækisins, sem samþykkt var í vor. Áætlunin felur í sér sölu á eignum OR sem ekki eru nauðsynlegar kjarnastarfsemi fyrirtækisins.

Perlan er eitt af helstu kennileitunum í Reykjavík og þangað koma um 600.000 gestir ár hvert, margir þeirra erlendir ferðamenn. Húsið var tekið í notkun 1991 og er það byggt ofan á sex tönkum, sem ekki teljast til hússins og munu áfram þjóna hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu.

Perlan er ein þeirra eigna sem stjórn OR samþykkti að selja í janúar síðastliðnum. Þá voru einnig settar reglur um söluferli eigna og ákveðið að gefa eigendum fyrirtækisins kost á að kaupa tilteknar eignir áður en þær færu í almenna sölu. Borgarráð Reykjavíkur ákvað samhljóða á fundi 23. júní sl. að gera ekki athugasemdir við að Perlan færi í almenna sölu og í kjölfarið leitaði OR tilboða í umsjón með sölu stærri eigna. Í því vali varð fasteignasalan Miklaborg hlutskörpust. Fulltrúar hennar munu því annast söluna og veita áhugasömum nánari upplýsingar um eignina.

Í fréttatilkynningu frá Orkuveitunni segir að frá því að OR réðst í eignasöluna hafi þessar eignir verið seldar:
·         Skemma við Andakílsárvirkjun
·         Starfsmannahús við Andakílsárvirkjun
·         Jarðirnar Berserkseyri og Berserkseyri ytri
·         Almannavarnaskýli í Mosfellsdal
Söluverð eignanna hefur verið í samræmi við áætlanir OR, sem byggðar eru á mati sérfræðinga á þessu sviði.
Staða mála hvað varðar aðrar eignir, sem auglýstar hafa verið, er þessi:
·         Hvammur og Hvammsvík. Tilboð voru opnuð 17. ágúst og standa viðræður við hæstbjóðendur yfir.
·         Húsnæði Minjasafns OR í Elliðaárdal. Tilboð voru opnuð 31. ágúst. Verið er að meta tilboð.
·         Hótel Hengill. Tilboð verða opnuð 7. september

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert