Samanlagt voru atvinnuleysisbætur og úttektir á séreignasparnaði hátt í 100 milljarðar króna á árunum 2009 og 2010. Sömu ár komu minnkandi umsvif í hagkerfinu glöggt fram í skattstofninum staðgreiðsla launa hjá ríkisskattstjóra.
Alls var stofninn 968,3 milljarðar árið 2008 og voru atvinnuleysisbætur hverfandi, eða 3,7 milljarðar króna. Stofninn hrundi þegar hagkerfið fór á hliðina haustið 2008 og var kominn niður í 843 milljarða 2009 og 837,4 milljarða 2010, ef atvinnuleysisbætur og úttekinn sparnaður er undanskilinn.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segir, að óljóst sé hversu lengi ríkið getur reitt sig á þessa tvo liði til að halda uppi skattstofninum. Hitt sé ljóst að það telst vart sjálfbært.