„Við þurfum að brjóta upp stöðnun og auka samkeppni og senda skýr skilaboð um að Ísland sé opið fyrir erlendri fjárfestingu. Og þar skal ég hreinskilnislega segja, að þar skuldar þessi ríkisstjórn þjóðinni skýr svör," sagði Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, á Alþingi í dag.
Hann sagðist taka algerlega skýrt fram að það ákvæði stjórnarsáttmálans að Íslendingar sæktust eftir erlendri fjárfestingu væri annað en orðin tóm.
„Ísland er opið fyrir erlendri fjárfestingu og á að vera það," sagði Árni Páll. „Við verðum að sækja fram, takast á við kyrrstöðuna og varðstöðu um sérhagsmuni í hverri grein. Þar þurfa allir flokkar hér á Alþingi að líta í eigin barm. Við höfum aftur og aftur orðið vitni að því í þessum sal þegar einstakir þingmenn hafa tekið hagsmuni einstakra hópa og atvinnugreina fram yfir þjóðarhagsmuni. (...) Við skulum sameinast um að sækja fram fyrir kraftmikið íslenskt athafnalíf, sem er alþjóðavætt, er opið fyrir nýjungum og getur sótt fram af krafti og skapað ný störf okkur öllum til heilla."
Árni Páll sagði að skortur væri á samkeppni á mörgum sviðum í íslenska hagkerfinu og markmiðið væri að brjóta upp þessa einokunarstöðu. Þá væru margar greinar, svo sem í matvælaframleiðslu, verndaðar fyrir samkeppni með ýmsum höftum, sem kveðið væri á um í lögum.
Sagði hann, að þótt raungengi íslensku krónunnar hefði undanfarin þrjú ár verið um 20% undir meðaltalsraungengi hefði útflutningur ekkert aukist að raungildi. Það sýndi, að miklir veikleikar væru í íslensku efnahags- og atvinnulífi og samkeppnishæfni skorti.
Þá sagði Árni Páll, að samstarf Ísland við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefði verið mikilvægt til að breyta viðhorfi til lækkunar skulda á Íslandi. Því öfugt við það sem ýmsir hefðu haldið fram upp á síðkastið hefði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitt stjórnvöldum viðspyrnu og fótfestu til að kalla eftir breytingum á viðhorfi til lækkunar skulda.
Engin löggjöf hefði verið til um lækkun skulda heimila og fyrirtækja þegar samstarfið við sjóðinn hófst. Vegna ráðgjafar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði stjórnvöld fengið fótfestu til að breyta þessu lagaumhverfi. Þannig hefði samstarfið við sjóðinn hjálpað Íslendingum við skuldaaðlögunina; sjóðurinn hefði barist gegn því að almenningur í landinu axlaði byrðar vegna annarra.