Þórunn ætlar í heimspeki

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hættir á þingi á mánudag. Hún segist ætla að gera breytingar á lífi sínu og hyggst setjast á skólabekk.

„Til að koma í veg fyrir allan misskilning þá er ég ekki sest í helgan stein, ég er ekki hætt í pólitíkinni og ég er ekki hætt í Samfylkingunni,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir og hlær, en hún tilkynnti í dag að hún hygðist hætta á þingi næstkomandi mánudag.

„Mig langar að breyta til í lífinu. Ég er búin að vera tólf ár á þingi og það er svolítið langt síðan ég gerði það upp við sjálfa mig að það væri ágætur tími. Og nú ætla ég að hafa vistaskipti og fara í nám í vetur og síðan heldur lífið bara áfram,“ segir Þórunn, sem hefur nú nám í heimspeki og siðfræði við Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert