Vilja frumvarpið bakdyramegin inn

Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir mbl.is/Ómar

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og nefndarmaður allsherjarnefndar, mótmælir því harðlega að boðaður hafi verið fundur í nefndinni næstkomandi mánudag enda hafi flokkarnir komist að samkomulagi um að ekki yrði fundað í nefndum á septemberþingi nema sátt væri um viðkomandi mál.

„Þá erum við að tala um brýn mál sem gleymdust á síðasta þingi, eins og olíuleitina t.d. sem allir eru sammála um,“ segir Vigdís, sem fer fram á að fundarboðið verði dregið til baka.

„Með þessu fundarboði er formaður allsherjarnefndar og meirihlutinn að fara fram og brjóta þetta samkomulag og þess vegna er ég að fara fram á að það verði dregið til baka. Því þetta eru vinnubrögð sem duga náttúrlega ekki,“ segir hún.

Þráinn Bertelsson og Þór Saari greiddu atkvæði gegn því að frumvarp um endurskoðun á lögum um stjórnarráðið yrðu afgreidd úr nefnd í morgun og segir Vigdís það hreinar línur að ekki sé hægt að koma frumvarpinu bakdyrameginn inn á septemberþingið með þessum hætti.

Meðal þeirra breytinga sem Þráinn vildi sjá gerðar á frumvarpinu var að ríkisstjórnarfundir yrðu teknir upp en Þór vildi að auki að það sem fram færi á fundunum yrði ítarlega skrásett. Vigdís finnur annað og meira að frumvarpinu.

„Ég er ekki ósátt við þetta sem stjórnarflokkarnir eru að gera að ágreiningsefni. Ég er fyrst og fremst ósátt við þetta frumvarp af því að það er verið að forsætisráðherravæða stjórnarráðið. Það er verið að taka vald úr höndum Alþingis og færa í hendur forsætisráðherra, með að ákveða hvað eigi að vera margir ráðherrar á hverjum tíma og hvaða verkefni eiga að hafa með höndum.

Það er verið að taka starfsheiti allra ráðuneyta og ráðherra úr sambandi. Það er það sem ég er á móti, að framselja löggjafarvaldið í hendur framkvæmdavaldsins með þessum hætti. Það eru efnisatriði þessa frumvarps en ekki hvort halda eigi opna ríkisstjórnarfundi eða hvort einhver leynd eigi að hvíla á skjölum í eitt ár, fjögur ár eða tíu ár.

Spuninn er í þá átt að þetta snúist um eitthvað allt annað, til að koma þessu bakdyramegin inn. Svo þegar þetta er tekið lengra snýst þetta um ESB-umsóknina, að það verður á einhvern hátt að ryðja Jóni Bjarnasyni úr vegi. Ekki að hóta honum, því þá er ríkisstjórnin sprungin, heldur að gera það með lögum og þess vegna er lögð þessi ofuráhersla á að gera þetta með þessum hætti, að leggja sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytið niður,“ segir Vigdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert