Alþingi tók ekki viturlega ákvörðun

Landsdómur.
Landsdómur. mbl.is/Kristinn

Prófessor í stjórnmálafræði segir í viðtali við AFP fréttastofuna, að Alþingi hafi ekki tekið viturlega ákvörðun þegar það ákvað að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir brot í embætti. Landsdómur kemur saman á mánudag.

„Því miður var það ekki viturlegt skref þegar Alþingi ákvað að leggja fram ákæru," hefur AFP eftir Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor í Háskóla Íslands. Haft er eftir Gunnari Helga, að pólitískir andstæðingar Geirs hafi viljað gera upp mál með þessum hætti.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir hins vegar við AFP, að þegar ljóst varð að Ísland stefndi í hrun sýni gögn að lítið hafi verið aðhafst til að draga úr þeim skaða, sem fyrirsjáanlegur var.  Því sé um að ræða mikilvægt mál.

Gunnar Helgi segir, að þótt það kunni að vera hægt að sýna fram á að ákæra á hendur Geir sé í samræmi við lög sé það ekki í samræmi við réttlætistilfinningu fólks að gera Geir einn ábyrgan fyrir hruninu með þessum hætti.

Geir sagði sjálfur í samtali við AFP í júlí, að réttarhöldin væru pólitískur farsi saminn af pólitískum andstæðingum. „Við komum í veg fyrir að landið yrði gjaldþrota," sagði Geir.

Steingrímur bendir á, að rannsóknarnefnd Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að Geir hafi gerst sekur um vanrækslu á embættisskyldum sínum.

„Ég held ekki að neinn haldi því fram að það hefði verið hægt að koma algerlega í veg fyrir hrunið en það hefði verið hægt að gera eitthvað til að draga úr tjóninu. Þetta er ekki pólitískt eða persónulegt," hefur AFP eftir Steingrími.

Landsdómur kemur saman á mánudag en þá fer fram málflutningur um frávísunarkröfu Geirs. AFP hefur eftir Geir, að þetta sé í þriðja skipti, sem lögmenn hans fara fram á frávísun málsins.

Frétt AFP

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert