Níu ára gömul stúlka hlaut opið beinbrot og ljótan áverka þegar hún festi handlegg í tívolítæki á Ljósanótt í Reykjanesbæ í dag. Stúlkan var flutt með hraði til aðgerðar í Reykjavíkur.
Það er vefur Víkurfrétta sem segir frá slysinu en þar kemur fram að leiktækið hafi verið tekið úr umferð um stund en síðan gangsett á ný eftir breytingar.
Að sögn læknis á slysadeild Landspítalans í Fossvogi er líðan stúlkunnar eftir atvikum en hún er nú í aðgerð.
Mjög margir hafa lagt leið sína í Reykjanesbæ í dag, en að sögn lögreglu hefur dagurinn gengið vel fram að þessu þó að mikið hafi verið að gera. Mikil umferð bíla er í bænum og lögregla leggur áherslu á að fólk geri sér grein fyrir að það taki tíma fyrir fólk að komast leiðar sinnar þegar svo margir séu í bænum.