Á fimmta þúsund manns hafa verið án vinnu í samtals ár eða lengur. Takist ekki að ganga á atvinnuleysið í þessum hópi er viðbúið að fjöldi fólks missi rétt til atvinnuleysisbóta á næsta ári og þurfi því að leita til sveitarfélaga um aðstoð.
Vignir Hafþórsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, staðfestir að fjöldi fyrirspurna hafi komið inn á borð stofnunarinnar frá sveitarfélögum að undanförnu, þar sem spurst sé fyrir um hversu margir séu að fara að missa rétt til atvinnuleysisbóta.
Vignir treystir sér ekki til að áætla hversu margir missi bótaréttinn á næsta ári en upplýsir að þeim fjölgi að óbreyttu er líður á árið.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að alls missa 115 bótaréttinn á næstu þremur mánuðum og liggur ekki fyrir hversu hátt hlutfall þeirra er með börn á framfæri sínu.