Efast um rétt Íslands til aðildarviðræðna

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins..
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.. mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur vafamál að Íslendingar eigi rétt á því að draga 27 Evrópusambandsríki að viðræðuborðinu til þess eins að sjá hvað kemur út úr viðræðum. Þetta sagði hann í umræðum á Alþingi í gær.

Bjarni sagði að ríkisstjórnin virtist lifa á því að koma einstaka málum fram á þessu kjörtímabili sem hafa lítið með hag almennings að gera. Hún virtist til dæmis lifa á því að keyra áfram aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

„Ég spyr: Til hvers? Hverju á það að skila á þessu kjörtímabili? Fólk talar um að það vilji sjá hvað kemur út úr viðræðunum. Hvaða rétt höfum við Íslendingar til þess að draga 27 Evrópusambandsríki að viðræðuborðinu til þess eins að sjá hvað kemur út úr því? Af þeirra hálfu liggur málið alveg skýrt fyrir, þau hafa komið sér saman um reglurnar. Þau ætlast til þess að þeir sem knýja dyra vilji komast þar inn, eins og regluverkið hefur verið samið af þeim sameiginlega,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert