Glerhjúpurinn „meistaraverk“

Ráðstefnu og tónlistarhúsið Harpa við Reykjavíkurhöfn
Ráðstefnu og tónlistarhúsið Harpa við Reykjavíkurhöfn mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Glerhjúpurinn á ráðstefnu- og tónlistarhúsinu Hörpu er  „meistaraverk“ að mati Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Forsetinn ræddi hvernig mannvirkið kallast á við hafið og fjallahringinn í setningarræðu á alþjóðlegu þingi um hugræna atferlismeðferð í Hörpu í vikunni.

Deilt hefur verið um hvort réttlætanlegt hafi verið að verja milljörðum króna af almannafé til að ljúka framkvæmdum við Hörpuna á miklum niðurskurðartímum.

Svar Íslendinga við kreppunni

Skilja mátti af ræðu forsetans að hann væri fylgjandi því að lögð var lokahönd á hið dýra mannvirki. Harpan sé dæmi um svar Íslendinga við kreppunni.

Þá sagði forsetinn Íslendinga hafa náð sér fyrr upp úr kreppunni og af meira afli en nokkurn hefði órað fyrir hina dimmu vetrarmánuði eftir að fjármálakerfið riðaði til falls.

Eins og oft áður vék forsetinn að smæð Íslands og sagði að þótt landið væri lítið hefði það lagt sitt af mörkum til framþróunar í vísindum.

Regluverkið þvælist ekki fyrir

Athygli vekur að forsetinn segir það gagnast vísindaiðkun á Íslandi að íþyngjandi regluverk sé ekki að þvælast fyrir gagnaöflun í vísindaskyni.

Minnir þessi greining forsetans óneitanlega á þau rök hans áður en fjármálakerfið hrundi að það væri íslenskum athafnamönnum í hag að svifaseint regluverk stæði ekki í vegi athafnaþrár þeirra.

Ræðu forsetans má nálgast hér en hún er á ensku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert