Nær þrefaldar skuldir heimilanna

Úr Smáralind.
Úr Smáralind. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Afskriftir til íslenskra fyrirtækja á árinu 2009 námu um 2,6-földum skuldum íslenskra heimila sama ár. Alls námu skuldir heimilanna 1.892,5 milljörðum króna í lok ársins. Til samanburðar fengu fyrirtæki um 4.852 milljarða króna afskrifaða.

Talan yfir skuldir heimilanna er fengin úr októberhefti Tíundar, tímariti ríkisskattstjóra, í fyrra og byggja á framtalsgögnum frá árinu 2009. Tölurnar yfir afskriftir til fyrirtækja á árinu 2009 eru aftur á móti fengnar úr öðru hefti Tíundar sem áður hefur verið sagt frá á fréttavef Morgunblaðsins.

Fram kemur í BA-ritgerð Þóru Kristínar Gunnarsdóttur um skuldir heimilanna frá árinu 2010 að þær hafi aukist úr 415,2 milljörðum króna árið 2000 í 1.683,2 milljarða samkvæmt skattframtölum ársins 2009. En tölurnar eiga þá væntanlega við árið 2008.

Jukust skuldirnar því um 209,3 milljarða króna milli ára, 2008 og 2009. Má til samanburðar nefna að Samtök fjármálafyrirtækja sendu frá sér tilkynningu fyrir helgi þar sem fram kom að heimilin hefðu fengið 144 milljarða króna afskrifaða frá hruni í formi húsnæðis- og bílalána.

Einnig er fjallað um skuldastöðu heimilanna í skýrslunni Greiðslugeta heimilanna sem Kjartan Broddi Bragason hagfræðingur vann fyrir Neytendasamtökin.

Kom þar fram að samkvæmt Seðlabanka Íslands hefðu skuldir heimilanna numið 1.890 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi 2008. Eru þá taldar með skuldir í bankakerfinu, við ýmis lánafyrirtæki, lífeyrissjóði, tryggingafélög og við Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Eru skuldirnar við Lín það árið, svo dæmi sé tekið, ríflega 100 milljarðar króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert