Fyrstu réttir haustsins fara fram í dag, en þá verður réttað í Rugludalsrétt í Blöndudal, Hraungerðisrétt í Eyjafjarðarsveit, Hrútatungurétt í Hrútafirði, Kleifnarétt í Fljótum, Ljárskógarétt í Laxárdal, Miðfjarðarrétt í Miðfirði og Möðruvallarétt í Eyjafjarðarsveit.
Á morgun verður réttað í Baldursheimsrétt í Mývatnssveit og Þverárrétt ytri í Eyjafjarðarsveit.
Margar réttir eru seinni á ferðinni í ár en síðustu ár. Ástæða er að vorið var kalt og því fór fé seinna á fjall en í venjulegu ári.
Sauðfjárslátrun er hafin víða um land, en hún hefst þó ekki að fullum krafti fyrr en um 10. september.