Svarar SA fullum hálsi

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Kristinn

Forsætisráðuneytið vísar gagnrýni Samtaka atvinnulífsins á tölfræðilega framsetningu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á svigrúmi fyrirtækja til að greiða laun á bug í tilkynningu til fjölmiðla nú síðdegis. Varðar málið framsöguræðu Jóhönnu við þingsetningu í gær.

Má sjá upptöku af framsöguræðu Jóhönnu um stöðu efnahagsmála hér.

Athugasemd Samtaka atvinnulífsins við ræðu Jóhönnu skýrir málavöxtu. Var athugasemdin svohljóðandi en hana má nálgast í heild á vef Samtaka atvinnulífsins:

Samtök atvinnulífsins benda á óbeina skatta

„Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í ræðu á Alþingi í dag að hlutur launa í landsframleiðslu hafi aldrei verið lægri en nú eða um 59% samanborið við yfir 72% árið 2007. „Lækkunin svarar til 13%  af landsframleiðslu sem farið hafa frá launþegum til fyrirtækja, í krónum talið um 200 milljarðar króna,“ sagði Jóhanna.

Þetta er ekki rétt. Umrædd hlutföll, 59% og 72%, eru af hugtakinu vergum þáttatekjum, ekki landsframleiðslu. Vergar þáttatekjur eru mun lægri fjárhæð en verg landsframleiðsla. Árið 2010 er landsframleiðslan áætluð 1.539,5 milljarðar króna en þáttatekjurnar 1.338,3 milljarðar króna. Mismunurinn á þessum tveimur hugtökum felst aðallega í óbeinum sköttum.“

Velti verðhækkunum ekki í verðlagið

Tilkynningin frá forsætisráðuneytinu er svohljóðandi:

„Í ræðu forsætisráðherra á Alþingi í gær 2. september lagði ráðherra ríka áherslu á að fyrirtækin í landinu færu varlega í verðhækkanir og veltu ekki launahækkunum að fullu yfir í verðlag. Benti ráðherra á að hlutur launa í landsframleiðslu hefði lækkað mikið og aldrei verið lægri.

Orðrétt segir í ræðunni:

„Í því sambandi bendi ég á að hlutur launa í landsframleiðslu hefur aldrei verið lægri en nú eða um 59% samanborið við yfir 72% árið 2007. Lækkunin svarar til 13% af landsframleiðslu sem farið hafa frá launþegum til fyrirtækja, í krónum talið um 200 milljarðar króna. Það ætti að létta mörgum fyrirtækjum að standa undir kjarabótum án þess að hækkunum sé velt út í verðlagið.“

Þessi orð verður Samtökum atvinnulífsins tilefni til að senda fjölmiðlum fréttatilkynningu í gær þar sem orð forsætisráðherra eru rengd.

Þær tölur sem forsætisráðherra vitnar til eru frá Hagstofu Íslands. Þær eru öllum aðgengilegar á heimasíðu Hagstofunnar (www.hagstofa.is) og bera heitið "Skipting landsframleiðslu eftir framleiðsluþáttum 1973-2010." Hér eru sýndar tvær töflur.

Sú fyrri sýnir hlutfallslega skiptingu framleiðslunnar eftir framleiðsluþáttum, en sú síðari sýnir heildarfjárhæðir. Síðari taflan sýnir að launagreiðslur í heild hafa staðið í stað frá 2007, en vergur rekstrarafgangur hefur aukist um 250 milljarða króna. Með öðrum orðum hlutur fyrirtækjanna hefur aukist um 250 milljarða króna og hlutur launþega er óbreyttur. Forsætisráðherra vísar ásökunum Samtaka atvinnulífsins um að fara ekki með rétt mál á bug.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert